Öystein Noreng, prófessor við Handelshöyskolen, skrifar í Dagsavisen, telur að Íslendingar eigi ekki að gangast við Icesave í núverandi mynd og leggur til myntbandalag við Noreg. Hann segir að Noregur eigi að hjálpa Íslandi og bendir á möguleikann á myntbandalagi þar sem Íslendingar taka upp norsku krónuna. Þetta yrði ekki mikil stækkun fyrir norska hagkerfið segir hann, því þjoðarframleiðsla Íslands sé aðeins 3,7 prósent af þeirri norsku.
Næsta skref gæti svo verið stærra efnahagssamband milli ríkjanna, jafnvel með sameiginlegri fiskveiðipólitík. Noreng telur að þetta myndi styrkja Ísland og Noreg gagnvart Evrópusambandinu – og líka gagnvart Rússum, en það er Norðmönnum ekki síst hugleikið.