Í Kiljunni í kvöld verður fjallað um litla bók sem nefnist Angantýr. Hana skrifaði Elín Thorarensen um ástir sínar og Jóhanns Jónssonar skálds. En bókin vakti litla hrifningu, Elín var eldri en Jóhann, fráskilin kona og móðir og mikið var reynt til að koma í veg fyrir að bókin næði dreifingu. Hún hefur nú verið endurútgefin með eftirmála eftir Soffíu Auði Birgisdóttur sem rekur söguna bak við þessa einstæðu bók.
Olga Guðrún Árnadóttir og Guðrún Ágústsdóttir segja frá bókinni Á rauðum sokkum – þar er rakin í máli og myndum saga Rauðsokkahreyfingarinnar sem spratt fram 1970 og hafði feikileg áhrif í íslensku samfélagi.
Við fjöllum einnig um nýútkomna bók eftir Óskar Guðmundsson, þar rekur hann ævi Þórhalls Bjarnasonar biskup. Hann var ekki einungis kirkjunnar maður, heldur framfaramaður á ýmsum sviðum – en hefur kannski gleymst að nokkru leyti vegna þess að hann vildi sættir fremur en átök. Þarna sýnum við einnig kvikmyndir frá þingmannaförinni 1905, það munu vera elstu kvikmyndir sem til eru af Íslendingum, en þær hafa nýskeð verið lagaðar þannig að myndgæðin eru furðu góð.
Þarna má sjá Þórhall, Tryggva Gunnarsson, Hannes Hafstein, Skúla Thoroddsen og fleiri mektarmenn þess tíma.
Kolbrún Bergþórsdóttir og Páll Baldvin Baldvinsson fjalla um Jarðlag í tímanum eftir Hannes Pétursson, Bernskubók eftir Sigurð Pálsson og Valeyrarvalsinn eftir Guðmund Andra Thorsson.
En Bragi Kristjónsson segir meðal annars frá kynnum sínum af Karli Einarssyni Dunganon – greifanum af Sankti Kildu.
Ljósmyndin sem prýðir forsíðu bókarinnar Á rauðum sokkum er einhver merkasta fréttamynd frá Íslandi tuttugustu aldar. Rauðsokkur báru þessa styttu niður Laugaveg 1. maí 1970 – þetta boðaði tímamót.