Það er sagt að auðmagn sé ekki þjóðhollt. Það er flutt milli landa meðan alþýða manna, launafólkið, situr eftir með sárt ennið.
Fyrir hrun fluttu efnaðir Íslendingar peninga í alls kyns aflandsfélög. Bankarnir gerðu út á að aðstoða við þetta. Menn áttu reikninga í Lúxemborg – talsvert af því var kvótagróði sem var komið úr landi.
Svo kemur hrun.
Ekki verður maður var við sérstaka iðrun eftir þetta, nei, því um auðmagnið gildir heldur ekki neitt siðferði. Það virðist eiginlega ekki mega nefna þetta tvennt í sömu andrá.
Samtök atvinnulífsins – sem er félagsskapur stórkapítalista á Íslandi – fullyrða að auðmenn og fjármagnseigendur muni aftur fara að flytja peninga sína úr landi ef þeir þurfi að borga skatta eins og almúginn.