Það eru ýmis æðin sem ganga yfir Ísland kringum jólin – einatt miða þau að því að auka áfengisneyslu landans.
Var þó oft um það talað í eina tíð að jólin væru hátíð barnanna – að þau upplifðu litla gleði þegar foreldrarnir stunduðu drykkju á jólum.
Fyrst var það jólaglöggið – það er sagt að leigubílstjórar hafi glaðst þegar neysla þess minnkaði. Þeim fannst erfitt að þrífa rautt gubb – með rúsínum – úr bílunum hjá sér. Íslendingar eru líklega eina þjóðin í heiminum sem hefur reynt að drekka sig fulla á þessum drykk sem nefnist glühwein í Evrópu.
Svo voru það jólahlaðborðin – þau eru ennþá við lýði. Sumum finnst reyndar frekar ógeðslegt að éta mat af borði þar sem drukkið fólk hefur farið um, frussað ofan í hann og verið með lúkurnar ofan í honum.
Nú er það jólabjórinn. Það er ekki friður fyrir jólabjórsáróðri í fjölmiðlum. Þeir bjóða upp á jólabjórssmakkanir og svo erum við minnt á að jólabjórinn hafi selst upp í fyrra.
Þetta byrjar strax snemma í nóvember – ekki er ráð nema í tíma sé tekið.