Öreigarnir í Lodz eftir sænska höfundinn Steve Sem-Sandberg er mikið stórvirki.
Þetta er löng bók og feiki ítarleg – það hefur ekki verið áhlaupaverk að þýða hana, en Ísak Harðarson gerir það með miklum sóma.
Bókin segir frá gettóinu í Lodz í Póllandi á tíma hernáms Þjóðverja. Gettóið í Lodz þraukaði lengur en gettóið í Varsjá sem var algjörlega jafnað við jörðu. Hins vegar eru ennþá til minjar um gettóið í Lodz eins og Sandberg sagði í viðtali sem birtist í Kiljunni í október.
Aðalpersóna sögunnar er einkennilegur maður: Chaim Rumkowski, misheppnaður kaupsýslumaður sem varð nokkurs konar konungur gettósins.
Rumkowski náði samkomulagi við Þjóðverja um að halda uppi atvinnustrarfsemi í gettóinu. Þar voru meðal annars saumaðir búningar fyrir þýska herinn, smíðuð húsgögn og framleiddur kvenfatnaður. Hann var mjög auðsveipur gagnvart Þjóðverjunum en beitti hörku inn á við.
Um framferði hans hefur verið mikið deilt, hann hefur verið talinn argasti svikari, en svo eru aðrir sem sem hafa borið í bætifláka fyrir hann og sagt að hann hafi þó náð að framlengja líf gettósins. Íbúum gettósins í Lodz vegnaði eilítið betur en annars staðar, þótt þeir gengju í gegnum hryllilegar þrengingar og töpuðu loks lífinu.
Tveir af helstu höfundum sem hafa skrifað um helförina hafa ólíka sýn á hann: Primo Levi ber blak af Rumkowski en Hannah Arendt er full fyrirlitningar gagnvart honum.
En í aðra röndina var þetta skelfilegur maður, hann var fjarska sjálfhverfur, hafði litla stjórn á skapi sínu, gat breyst úr að því er stilltum manni í óheflaðan rudda á augabragði. Hann hélt sig ríkmannlega, hafði um sig hirð samverkamanna sem var yfirstétt í gettóinu, hann hafði rekið munaðarleysingjahæli fyrir stríðið – heimildir benda til þess að hann hafi verið kynferðislega brenglaður og níðst á stúlkubörnum sem voru í umsjá hans.
Fræg er ræðan Rumkowski þar sem hann fór þess á leit að íbúar gettósins afhentu börnin sín, tíu ára og yngri, svo aðrir mættu lifa. Hún sýnir betur en margt annað hryllinginn í helförinni.
Rumkowski dó í Auschwitz í ágúst 1944, samstarfið við Þjóðverja bjargaði honum ekki – þeir litu á hann sem hvern annan gyðing.
Sandberg lýsir Rumkowski, lífinu í gettóinu og fólkinu þar á stilltan og nákvæman hátt. Þetta er mögnuð saga, fjarska óhugnanleg, breið og stór, sem vindur fram með miklum þunga.
Chaim Rumkowski í vagni sínum í gettóinu í Lodz eða Litzmannstadt eins og þýsku nasistarnir vildu kalla borgina.