Það hefur verið sagt að einn munurinn á Norðurlöndunum og Íslandi sé að þar borgi fólk skattana sína með glöðu geði. Um daginn var gerð skoðanakönnun sem sýnir að Danir vilja ekki lækka skatta – þó er skatthlutfall þar eitt það hæsta í veröldinni. Danir fá mikið fyrir skattana sína, en þeir eru hærri en á Íslandi.
Tvö lönd eiga í sérstökum vandræðum vegna skattheimtu – Grikkland og Bandaríkin. Grikkland vegna þess að ríkinu tekst ekki að rukka skattana sem það leggur á fólk og Bandaríkjunum vegna þess að skattar á ríkt fólk hafa verið lækkaðir úr öllu valdi og virðist ekki vera hægt að hækka þá aftur. Fjárlagahallinn í Bandaríkjunum er óskaplegur og mikil skuldsetning hjá hinu opinbera.
Um daginn var formaður Samtaka iðnaðarins á ferð í Moskvu og hreifst mjög af lágri skattprósentu. Hann gleymdi að geta þess að innviðir rússnesks samfélags eru við hrunmark.
Í morgun skrifar alþingismaðurinn Höskuldur Þórhallsson grein í Morgunblaðið þar sem hann ber blak af svartri vinnu. Hann skrifar:
„Skattastefna ríkisstjórnarinnar er í rauninni að stýra málunum í þessa átt. Þegar fólk sér stóran hluta af vinnunni sinni hverfa í ríkispyttinn hlýtur þetta að verða raunin.“
Nú er það reyndar svo að stór hluti landsmanna hefur engin tækifæri til að svíkja undan skatti. Flestir þurfa að reiða fram sinn tekjuskatt og sitt útsvar án þess að mögla – þeir sem ekki borga eru í raun að svindla á þessu fólki.
En svo má geta þess að i sumum viðskiptum þykir því miður nánast sjálfsagt að svíkja undan skatti. Ég átti nokkur samskipti við iðnaðarmenn fyrir stuttu um að gera ákveðið verk fyrir mig. Þeir virtust ganga út frá því að þetta yrði svart. Þegar ég tjáði þeim eftir nokkrar samræður að ég vildi gera þetta samkvæmt reglum urðu þeir fjarska áhugalitlir – og hefur ekki heyrst í þeim síðan.