Maður verður sífellt meira forviða yfir því hversu viti firrtir stjórnendur Ísraelsríkis virðast vera – og hvernig þeir hafa Bandaríkjastjórn í taumi.
Nú er samþykkt á vettvangi Sameinuðu þjóðanna – með lýðræðislegum hætti – að Palestína fái inngöngu í UNESCO, menningar- og þróunarstofnun SÞ.
Þá bregst Ísraelsstjórn við með því að frysta skattgreiðslur sem hafa verið innheimtar fyrir Palestínu og hraða byggingu stórra landránsbyggða í Austur-Jerúsalem.
Þessi ákvörðun SÞ er semsagt notuð sem skálkaskjól fyrir frekari nýlendukúgun.
Annars þarf þetta kannski ekki að koma svo á óvart. Ein merkasta bók sem hefur verið rituð um Ísrael heitir Járnveggurinn og er eftir sagnfræðinginn Avi Shlaim. Nafnið á bókinni vísar í þá stefnu stjórnvalda í Ísrael að beita Palestínumenn ávallt ítrustu hörku – koma fram við þá eins og maður sitji bak við vegg úr járni.