Georg Papanderou er búinn að hleypa Evrópusambandinu í loft upp með þeirri yfirlýsingu að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla um síðasta björgunarpakkann vegna Grikklands.
Mikið uppnám ríkir líka í grískum stjórnmálum, fjármálaráðherrann var lagður inn á spítala með magaverki í morgun – það er sagt að Papandreou hafi ekki tilkynnt honum né öðrum um fyrirætlanir sínar – sex áhrifamenn úr Pasok, flokki Papandreous, krefjast þess nú að hann fari frá og einn þingmaður er genginn úr flokknum – sem þýðir að meirihluti hans á þingi er afar naumur.
Papandreou hafði líka fagnað björgunarpakkanum um helgina – að minnsta kosti hafði hann reynt að sýnast nokkuð bjartsýnn.
En skjótt skipast veður í lofti. Yfirlýsingin um þjóðaratkvæðagreiðsluna varð til þess að markaðir snarlækkuðu – það þarf ekki meira til á þessum erfiðu dögum. Þó er ekki víst að hún verði, það hefur verið bent á að stjórnarskrá Grikklands heimili ekki þjóðaratkvæðagreiðslur um fjárhagsleg málefni, og einnig er hugsanlegt að Karolos Papoulias, forseti landsins, fallist ekki á þjóðaratkvæðagreiðsluna.
Svo er annar möguleiki að stjórn Papandreous falli einfaldlega – þá gæti tekið við tími algjörrar stjórnmálaupplausnar. Besta ráðið gegn því virðist vera einhvers konar þjóðstjórn – ekki bara vegna sælunnar sem felst í sameiginlegu skipbroti, heldur vegna þess að stóru flokkarnir tveir, Pasok og Nea Demokratia, bera báðir ábyrgð á ógöngunum sem landið er komið í. Meðan þeim er ekki einfaldlega sópað burt bera þeir ábyrgð á að leysa vandann saman.
Í dag fréttist til dæmis að 9000 manns yfir 100 ára aldri væru að þiggja eftirlaun hjá gríska ríkinu. Svo var farið að skoða málin og þá kom í ljós að raunveruleg tala þessara lífeyrisþega er ekki nema 1500. Það eru fjölskyldur í samkrulli við spillta embættismenn sem láta eins og hinir séu á lífi.
Það getur tekið langan tíma að undirbúa þjóðaratkvæðagreiðsluna og á meðan framlengist óvissuástandið. Byrja þarf á að setja sérstök lög um hana. En það er líka hægt að líta jákvætt á málin og segja að rétt sé að setja þetta í lýðræðislegt ferli. Það er hugsanlegt að gríska þjóðin myndi samþykkja björgunarpakkann og þá myndi lögmæti hans náttúrlega eflast til muna. En verði honum hafnað bíður sennilega fátt annað en þjóðargjaldþrot.