Steingrímur Hermannsson mun eitt sinn hafa sagt eitthvað á þá leið að venjuleg hagfræðilögmál giltu ekki á Íslandi. Þá var mikið hlegið. Seinna voru hörðustu andstæðingar Steingríms reyndar farnir að stjórna samkvæmt svipuðum hugmyndum – Davíð Oddsson virðist líka hafa trúað þessu innst inni.
Síðar komu erlendir sérfræðingar og bentu Íslendingum á að allt væri að fara til fjandans hjá þeim.
Þá var svarað að þeir skildu ekki íslenska hagfræði – þeir þyrftu helst á endurmenntun að halda.
Í síðustu viku töluðu hér nokkrir af frægustu hagfræðingum í heimi, Nóbelsverðlaunahafar og prófessorar við virtustu háskólastofnanir. Þeir voru á einu máli um að íslenska verðtryggingin væri skaðleg, það hefðu verið mistök að taka upp þetta kerfi, nauðsynlegt væri að losna við það sem fyrst – hún héldi aftur af efnahagsbatanum. Þeir sem stóluðu mest á verðtrygginguna yrðu að taka á sig skell – eins og aðrir í samfélaginu.
En þá koma aftur upp sömu raddirnar – þeir fatta þetta ekki, er sagt. Kerfið hérna er ofvaxið skilningi þeirra – sérstaða Íslands lætur ekki að sér hæða.