Það var talað um það á hagfræðiráðstefnunni í Hörpu er að leggja skatt á útflutningsfyrirtæki vegna skyndigróðans sem þau fengu þegar krónan féll. Á ensku nefnist þetta windfall tax.
Meðal þeirra sem sögðust ekki skilja að þetta hefði verið gert er hinn þekkti sósíalisti Martin Wolf.
Nei, annars, ehemm, hann er víst ekki vinstrimaður – og hefur verið fagnað hér sem ágætum sérfræðingi um Evrópusambandið.
Það er hins vegar nánast óhugsandi að hægt sé að koma þessu í kring. Hagsmunahóparnir eru svo sterkir hér á landi – og málpípur þeirra svo háværar. Stjórnvöld mega sín lítils gagnvart þeim.
En það er ljóst að hér hefur orðið mikil tilfærsla á fjármunum til útflutningsgreinanna, fiskveiðarnar jukust ekki, ekki heldur álframleiðslan, það sem gerðist er að verð gjaldmiðilsins stórlækkaði og kjör vinnandi fólks versnuðu. Vinnuaflið er ódýrara fyrir útflutningsfyrirtækin en áður. Þorsteinn Pálsson benti á þetta í Fréttablaðsgrein þar sem hann sagði að í mörgum evruríkjum hefði verið meiri hagvöxtur en hérna, gengishrunið hefði ekki örvað hagvöxtinn heldur fært fé frá almenningi til útflutningsfyrirtækja.