Hópur fólks er að mótmæla fyrir utan Hörpu á ráðstefnu um efnahagsmál.
Það virðist halda að þetta sé einhvers konar halellújasamkoma fyrir Alþjóða gjaldeyrissjóðinn.
Líklega er það nokkuð gróft vanmat á fyrirlesurunum á ráðstefnunni.
Þetta er í raun einstakt tækifæri til að heyra í nokkrum af fremstu hagfræðingum heimsins – á tíma þegar hagstjórnin er á hengiflugi. Það er ekki bara forvitnilegt að heyra hvað þetta fólk hefur að segja um Ísland, heldur líka um alþjóðamálin.
Í hópi ræðumanna eru menn eins og Paul Krugman, Simon Johnson, Joseph Stiglitz og Martin Wolf – þetta eru þeir frægustu, þarna eru tveir Nóbelsverðlaunahafar. Ég held að megi fullyrða að allt séu þetta frjálsir andar og örugglega engir taglhnýtingar AGS.
Við höfum þegar heyrt hvað tveir þeirra hafa að segja. Wolf og Stiglitz. Þeir staðhæfa báðir að rétt hafi verið af Íslendingum að hafna Icesave.