Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, slær á tvær ansi lífseigar goðsagnir í viðtali við Fréttablaðið í dag.
Hörður segir að í raun sé ekki mikil orka á Íslandi. Það sé hins vegar mikið af orku miðað við fjölda landsmanna. Orkan dugi íbúafjöldanum vel – en í alþjóðlegu samhengi sé hún næg til að sjá helmingi Dana fyrir orku.
Hitt er varðandi raforkuverð.
Hörður segir að ekkert raforkufyrirtæki á Íslandi muni fjármagna sig á því verði sem tíðkast hafi áður fyrr. Framvegis verði að tryggja arð í gegnum raforkuverðið. Það þýði heldur ekki að einblína á áhrif á tíma framkvæmdanna.
Stundum hefur verið talað um úrtölumenn varðandi verklegar framkvæmdir á Íslandi – þá sem vilja fara hægt í sakirnar – það er kannski spurning hvort megi kalla þá sem vilja virkja hvað sem tautar og raular útsölumenn.