John Kampfner skrifar áhugaverða grein í Guardian þar sem hann ber saman ensku og þýsku aðferðina við að stjórna efnahagsmálum.
Á Englandi, segir hann, byggir kerfið á fjármagnsmörkuðum, skjótum gróða, efnahagsbólum, en í Þýskalandi er lögð áhersla á hægan og öruggan vöxt, menntun og samráð.
Fyrra kerfið var mjög vinsælt fyrir hrun, þá þótti Þýskaland sérlega silalegt, en nú er varla spurning hvort módelið hefur vinninginn.
Gæti kannski líka verið lærdómur fyrir þá á Íslandi sem eru í ofsafenginni leit að nýjum efnahagsbólum, en þannig hefur efnahagsstjórnin líka verið hérna – þegar menn fóru að veðsetja kvótann, þegar þeir byggðu Kárahnjúka og mögnuðu samtímis upp ógurlega húsnæðis- og braskbólu með tilheyrandi hágengi og vaxtamunarviðskiptum.