Það er merkileg frétt að þrátt fyrir fjölgun ferðamanna þá aukist tekjur af þeim ekki að marki.
Það geta verið ýmsar skýringar á þessu – líklega sú helst að kaupmáttur hefur ekki aukist neins staðar á Vesturlöndum undanfarin ár – fólk hefur úr minna að moða. Ísland er kannski aðeins ódýrara en það var áður, í samanburði við önnur lönd, en meðalferðamaðurinn hefur úr minna að spila.
Nema kannski þeir ofsaríku.
Ísland laðar að líkindum helst til sín ferðamenn sem eru nokkuð sparsamir. Þetta er fólk sem vill skoða náttúruna, setur ekki fyrir sig að búa í tjöldum eða mjög einfaldri gistingu.
Því hótel á Íslandi eru yfirleitt ekki sérlega spennandi. Maður furðar sig stundum á því hvað þau eru fábrotin og gamaldags. Víða erlendis er það nánast orðin listgrein að gera hótel aðlaðandi og búa þau einhvers konar sérkennum.
Nú á reyndar að fara að byggja hótel við Hörpu, manni skilst að það sé hótelkeðjan Marriott sem eigi að reka það – hótelið verður fimm stjörnu og væntanlega rándýrt. En það gæti laðað til sín eyðslusama ferðamenn.