Ég nefndi það í gær að í dag eru liðin 200 ár frá fæðingu ungverska tónskáldsins Franz Liszt. Þetta er mikill áhrifamaður í tónlistarsögunni, hann er sagður hafa verið afburða píanóleikari – sá fremsti á sinni tíð – og þróaði tónlistina fyrir hljóðfærið mikið. Hann var glæsimenni sem var dáður út um alla Evrópu og naut mikillar kvenhylli – því hefur verið líkt við rokkstjörnur seinni tíma. Hann ferðaðist fram og aftur um Evrópu – á tíma þegar ferðalög voru ekki auðveld. Vinur Liszts, annar frumkvöðull píanósins, Chopin spilaði hins vegar mjög sjaldan opinberlega. Samband Liszts og Chopins var reyndar ekki alveg einfalt – en hinn rómantíski andi verka þeirra og nýstárlegir hljómarnir sem þeir könnuðu breyttu tónlistarsögunni.
Þrátt fyrir frægðina var Liszt örlátur og sanngjarn maður. Hann var mög ör á fé, hélt góðgerðatónleika og velgjörðarmaður ýmissa tónskálda eins og Berlioz, Saint-Saëns og Wagners. Wagner giftist dóttur hans Cosimu. Það stafar ljóma af minningu hans.
Liszt skrifaði mikið af tónlist fyrir píanó, sumt af því útheimtir mikla tækni – og hefur jafnvel verið gagnrýnt fyrir að vera innantóm sýndarmennska. Þar hefur samanburðurinn við Chopin verið honum í óhag. Þessi viðhorf hafa þó verið mjög að breytast. Svo er annað í tónlist Liszt, hin hægu, angurværu verk, sem eru dásamlega fögur – eins og til dæmis Huggun nr. 3 sem hér er leikin af stórpíanistanum Vladimir Horowitz – takið eftir svipnum á honum lokin. Það er næstum eins og hann sé að kinka kolli til tónskáldsins.