fbpx
Mánudagur 15.september 2025
Eyjan

Hrópandinn á eyjunni – skortur á samfélagsvitund

Egill Helgason
Fimmtudaginn 20. október 2011 17:32

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Umræðan um Grikkland tekur á sig sérstæðar myndir, enda er ástandið þar aðallega notað í einhverjum pólitískum skærum hér heima.

En þekkingin á ástandinu þar ristir ekki djúpt.

Grikkir stímdu ár eftir ár langt fram úr fjárlögum. Reyndar voru reikningar ríkisins falsaðir til að þetta sæist ekki. Svo gekk það ekki lengur, það koma að skuldadögum. Það grasserar ótrúleg spilling í landinu. Menn verða vellauðugir af því að maka krókinn í stjórnmálum með því að útdeila gæðum ríkisins – og ráða ótölulegan vina og frænda í störf. Skattaskil eru hreint hörmuleg – í ferðaþjónustu, sem er helsta atvinnugreinin, gera menn allt til þess að komast hjá því að borga skatta. Auðmenn borga ekki skatta, læknar borga ekki skatta – frægt er dæmið um villuhverfin í Aþenu þar sem fjöldi sundlauga sem var á opinberri skrá var aðeins brot af veruleikanum. Skortur á samfélagsvitund er kannski aðalvandamálið.

Grikkir gera sér svosem grein fyrir þessu sjálfir, en vandinn er að þeir virðast vera ófærir um að breyta þessu. Spillingarkerfið er of sterkt. Það er mótmælt í Aþenu – og maður hefur mikla samúð með fólki sem þarf að taka á sig kjaraskerðingar. Verkföll hjálpa hins vegar ekki mikið í þessu ástandi – það eru Grikkir sjálfir sem hafa hvað eftir annað kosið yfir sig spillingaröfl. Grikkir virðast eiga afar erfitt með að líta í eigin barm og eru furðu gjarnir að kenna öðrum um ógæfu sína – til dæmis Evrópusambandinu eða innflytjendum. Eitt sinn hefði svona ástand leitt til þess að herforingjar tækju völdin – við lifum á breyttum tímum og það er varla hætta á slíku.

Evrópusambandið og Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn hafa verið að átta sig á því að Grikkir geta ekki staðið undir skuldabyrði sinni. Grikkir upplifðu skuldsett góðæri eins og margar aðrar þjóðir á árunum eftir 2000. Héldu meðal annars Ólympíuleika sem þeir höfðu örugglega ekki efni á. Grikkir geta ekki staðið skil á þessum skuldum – greiðslufall er nær örugglega framundan, kannski á næstu mánuðum. Það er talað um að ríkið fari í einhvers konar skipulagt þrot. Þar munu Grikkir þurfa aðstoð ESB og AGS; planið sem gekk út á að Grikkir hertu sultarólina, kæmu ríkisrekstrinum í skikk til að greiða skuldir sínar gekk ekki upp. Íslendingum hefur til dæmis gengið mun betur með það dæmi. Líklega voru kvaðirnar of strangar, en efndirnar hafa líka verið afar lélegar.

Ennþá stendur samt upp á Grikki að breyta um kúrs, að koma upp samfélagið þar sem ríkið er ekki leikvöllur spillingar, þar sem fólk tekur á sig skatta og skyldur, þar sem fjárfestar þora að hætta fé sínu, þar sem fólk yppir ekki bara öxlunum og segir að svona hafi þetta alltaf verið – annars munu þeir ekki hafa efni á velferðarkerfinu sem nú er sagt að verið sé að brjóta niður. Peningarnir fyrir því eru í rauninni ekki til. Það er ekki hægt að ætlast til að Þjóðverjar borgi fyrir það til langframa – þótt það geti verið skynsamlegt stutta hríð.

Ég get sagt litla sögu í þessu sambandi. Maður hélt kannski að hefði orðið hugarfarsbreyting, en líklega ekki. Á eyju sem ég dvaldi á í Grikklandi í sumar tók ég eftir því að einn daginn birtust kassakvittanir á borðum veitingahúsa. Ég hafði aldrei séð það áður. Ég spurði hvernig stæði á þessu og var sagt að sérstakir skattaeftirlitsmenn hefðu komið með hraðbáti til eyjarinnar um morguninn. Þetta er liður í átaki stjórnvalda til að bæta skattskilin.

En daginn eftir voru kassakvittanirnar horfnar – og þá væntanlega eftirlitsmennirnir líka.

Eftir stóð vinur minn sem starfar á litlum veitingastað og messaði í allt sumar að fólk ætti að krefjast kvittana fyrir öll viðskipti. Draumur hans var um samfélag þar sem allir koma hreint fram og standa í skilum. „Við þurfum þetta til að reka skólana og sjúkrahúsin!“ sagði hann.En hann var einn í liði – rödd hrópandans á eyjunni. Enginn tók mark á honum.

Ég dvaldi um tíma á hóteli þar sem ég hef verið áður. Ég borga yfirleitt með kreditkorti fyrir hótelgistingu. En þegar ég kvaddi í sumar spurði hóteleigandinn mig hvort ég gæti ekki komið með reiðufé næst – borgað svart eins og það heitir – þá væri hægt að gefa mér góðan afslátt og allir væru ánægðir.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Ólík viðbrögð við hatri

Þorsteinn Pálsson skrifar: Ólík viðbrögð við hatri
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Stefnuræða forsætisráðherra: Biður fólk um að gæta orða sinna

Stefnuræða forsætisráðherra: Biður fólk um að gæta orða sinna
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Thomas Möller skrifar: Stöðugleiki skiptir mestu máli

Thomas Möller skrifar: Stöðugleiki skiptir mestu máli
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Hálf öld frá því að miðillinn sem öllu breytti hóf göngu sína

Hálf öld frá því að miðillinn sem öllu breytti hóf göngu sína
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Nína Richter skrifar: Popúlismi er tæki og við erum fólk

Nína Richter skrifar: Popúlismi er tæki og við erum fólk
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Þorsteinn Pálsson skrifar: Utanríkispólitík stjórnarandstöðunnar

Þorsteinn Pálsson skrifar: Utanríkispólitík stjórnarandstöðunnar