Ég er efins um að eigi að kalla Stóru systur ofstækissamtök – en þær virðast telja óhefðbundin meðöl leyfileg í baráttunni gegn vændi.
Skilgreining þeirra er að vændi sé ofbeldi – og þær starfa út frá þeirri hugmynd og því að samfélagið taki ekki nógu harkalega á því.
Í raun má segja að þær séu það sem á ensku kallast vigilantes – orðið er komið úr spænsku/latínu – það er notað um fólk sem er tilbúið að taka lögin að einhverju leyti í sínar hendur.
Systurnar telja að tilgangurinn helgi meðalið.
Þær héldu blaðamannafund og voru í kuflum, huldu andlit sín. Þær virðast semsagt ekki vilja að spyrjist út hverjar þær eru.
Gott og vel, en við lifum í opnu samfélagi þar sem fólk er frjálst skoðana sinna og það er alveg óþarfi hjá fjölmiðlunum að láta leyndina eftir þeim. Það er sjálfsagt að upplýsa hverjir eru þarna að baki.
Wikipedia segir frá vigilöntum í Missouri sem nefndust Bald Knobbers. Þeir störfuðu á seinni hluta 19. aldar, en ljósmyndin er úr kvikmynd frá 1919. Einna þekktastir vigilanta eru samtök sem nefnast Verndarenglar og eru upprunin í New York.