Ég er ekki viss um nema Frakkar séu mesta bókmenntaþjóð í heimi. Þar er ekki bara blómleg bókaútgáfa og fjöldi bókaverslana, heldur er bókmenntaumræðan svo lífleg – og skiptir svo miklu máli. Það er stundum eins og líf og sál þjóðarinnar séu í húfi þegar rætt er um bókmenntir í Frakklandi.
Það er frábært að koma á svæði frönsku útgefendanna hér í Frankfurt. Þýskar bækur eru fallegastar, það stendur enginn Þjóðverjum á sporði í bókagerð, það er óskaplega mikið um að vera hjá Bandaríkjamönnunum og Bretunum en þeir virðast ekki hafa ýkja mikinn áhuga á þeim sem ekki skrifa á ensku. Hjá Frökkunum finnur maður áhuga á höfundum alls staðar að úr heiminum, eins og þessi ljósmynd sýnir.
Þetta er af bás hins stórmerka forlags Gallimard. Þarna má sjá Jón Kalman Stefánsson innan um höfunda eins og Martin Amis, Borges, Handke, Hemingway, Hrabal, Hertu Müller, Amos Oz, Ohran Pamuk, Philip Roth, Bernard Schlink og Vargas Llosa.