Einhver leiðinlegasti og langvinnasti kafli í íslenskri stjórnmálasögu eru deilurnar sem geisuðu lengi í Alþýðubandalaginu. Þessi átök fengu mikið pláss í fjölmiðlum um langt skeið – deilendur voru líka mjög sannfærðir um mikilvægi þeirra.
Þær gengu í stuttu máli út á að þarna var fólk saman í flokki sem hvorki gat það eða vildi í rauninni.
Armarnir sem tókust á voru annars vegar undir forystu Svavars Gestssonar og hins vegar undir forystu Ólafs Ragnars Grímssonar. Í liði Svavars var meðal annars Steingrímur J. Sigfússon, en Össur Skarphéðinsson var í liði Ólafs Ragnars – þar til hann söðlaði um og gekk í Alþýðuflokkinn.
Um þetta var meira að segja skrifuð heil bók, Alþýðubandalagið – átakasaga eftir Óskar Guðmundsson. Sumt af því sem þar stendur virkar býsna spaugilegt nú aldarfjórðungi síðar.
Það gerðist svo eftir áralangar erjur milli þessa fólks – sem þoldi ekki hvert annað – að Alþýðubandalagið klofnaði. Annar hlutinn fór í Samfylkinguna, hinn hlutinn fór Vinstri hreyfinguna – grænt framboð.
Flokkanna sem nú starfa saman í ríkisstjórn. Og þá kemur í ljós að pólitísku átakalínurnar eru ekki endilega þær sem menn töldu í hinu mikla persónulega óþoli forðum tíð.
En það er athyglisverð tilgáta hjá Guðna Th. Jóhannessyni að erjurnar milli núverandi forseta og fjármálaráðherra eigi sér upptök þarna – Össur virðist reyndar vera á sama máli.
Í þá gömlu góðu daga: Ólafur Ragnar heldur ræðu þegar hann var formaður Alþýðubandalagsins, en Steingrímur J. og Svavar stinga saman nefjum.