Kristin Halvorsen, formaður Sósíalíska vinstriflokksins í Noregi, ætlar að láta af embætti á næsta landsfundi flokksins. SV tapaði fylgi í sveitarstjórnarkosningunum í Noregi um helgina.
Halvorsen hefur verið formaður flokksins síðan 1997 og 2005 myndaði hún ríkisstjórn með Verkamannaflokknum. Það var í fyrsta sinn að SV var með í ríkisstjórn. Síðan hefur hún setið í ríkisstjórnum Jens Stoltenbergs forsætisráðherra, sem fjármálaráðherra frá 2005-2009 og menntamálaráðherra frá 2009.
Noregur er land sem líkt og undanþegið frá þeim efnahagsvandamálum sem við er að glíma annars staðar í heiminum. Það gerir auðvitað hinn mikli olíuauður. Norðmönnum hefur líka tekist að koma í veg fyrir að olíupeningarnir skapi óþarflega mikla þenslu í landinu. Almennt eru stjórnmál í Noregi mjög til vinstri – vinstri sjónarmið eru þar almennari en til dæmis á Íslandi.
Ríkisstjórnir Stoltenbergs hafa reynst vera farsælar, en flokkur Halvorsen hefur verið að tapa fylgi. Mest var fylgi flokksins 12,1 prósent í þingkosningum 2001, en 2009 var það komið niður í 6,2 prósent. Það féll enn frekar í sveitarstjórnarkosningunum nú um helgina. Vinstri armur flokksins er óánægður með hvernig flokkurinn hefur samlagast stjórnarháttum kratanna í Verkamannaflokknum. Þar er innan um fólk sem vill rótttækar breytingar á þjóðskipulaginu. Þetta er hinn sígildi vandi sem vinstri flokkar lenda í þegar þeir fara að taka ábyrgð á stjórnarháttum í kapítalísku hagkerfi – hinir rótttækustu flæmast burt, en eftir sitja hinir pragmatísku með tálgað fylgi sitt.
Og nú er jafnvel talað um að SV muni yfirgefa ríkisstjórnina – og þá hugsanlega opna dyrnar fyrir flokkunum til hægri.
Kristin Halvorsen ætlar að hætta eftir langa formannstíð hjá SV. Hún var gestur í Silfri Egils – mig minnir að það hafi verið 2004.