Tímasetning er fyrir öllu í pólitík.
Það var frægt árið 2007 þegar Gordon Brown var kominn að því að boða til kosninga, en hætti við á síðustu stundu. Nokkru síðar fjaraði undan honum og tap í kosningum blasti við.
Orðrómur getur líka öðlast sjálfstætt líf. Það var farið að hvísla um formannsframboð Hönnu Birnu Kristjánsdóttur í Sjálfstæðisflokknum, og nú er búið að barna söguna. Hún vísaði þessu ekki frá sér – skoðanakönnun frá því sumar virðist benda til þess að hún njóti meira fylgis en Bjarni Benediktsson meðal kjósenda.
Það er svo spurning hvernig staðan væri á landsfundi, hvort fulltrúar utan af landi myndu til dæmis styðja Hönnu BIrnu eða fulltrúar úr Kraganum, hinu fjölmenna kjördæmi Bjarna Ben. Það hefur í raun ekki komið fram hverjir séu stuðningsmenn Hönnu Birnu.
Og svo er það spurningin með tímasetninguna. Er þetta rétti tíminn fyrir Hönnu Birnu? Ef hún bíður gæti hún misst af lestinni. Skyldi ríkisstjórnin lafa verður næsti landsfundur máski haldinn stuttu fyrir kosningar – þá er kannski ekki sniðugt að skipta um formann. Flokknum gengur ágætlega í skoðanakönnunum – þýðir það að Bjarni Ben er að ná betri tökum á honum. Það er lika möguleiki að stjórnin falli og Bjarni verði orðinn forsætiráðherra innan tíðar. Bjarni virðist líka hafa ákveðna, að minnsta kosti tímabundna, velþóknun úr Hádegismóum eftir að hann tók harðari afstöðu gegn ESB aðildinni.
Morgunblaðið var lengi blað Sjálfstæðisflokksins – þótt það tæki sjálfstæða afstöðu í einstaka máli eins og kvótanum – en nú eru ákveðin teikn á lofti um að Sjálfstæðisflokkurinn sé orðinn flokkur Morgunblaðsins. Það er dálítið annað.
Það gætu verið átök framundan í flokknum um ESB. Það er hlutverk formannsins að reyna að halda flokknum saman. Það útheimtir mikla jafnvægislist. Hvernig ætlar Hanna Birna að taka á því? Það er langt síðan hún hefur heyrst tjá sig um annað en borgarmál. Er einhver merkingarmunur á henni og Bjarna.
Hanna Birna þarf að ákveða hvort hún á að hrökkva eða stökkva – hvort rétti tíminn er núna.
Annars setti Sjálfstæðismaður fram kenningu fram við mig fyrir nokkru. Hún hljóðaði sem svo að flokkurinn myndi ganga í gegnum tímabil veikra formanna sem myndu ekki endast lengi. Hann taldi Bjarna í þeim hópi. Að því loknu gæti sviðið verið opið á nýjan leik fyrir – hvern anan en Davíð Oddsson?