Ég las um daginn viðtal við Lars Christiansen hjá Danske Bank þar sem hann sagði að rétt hefði verið að einkavæða íslensku bankana.
Jú, bankarnir hér voru einkavæddir seint og um síðir – síðar en víðast hvar í heiminum. Það getur oft verið skynsamlegt að selja eignir – en það er ekki sama hverjir kaupa og hvernig. Ég get selt íbúðina mína, en ég passa mig á því að selja hana ekki skúrkum. Pólitísku klíkurnar gátu ekki hugsað sér að sleppa hendinni af bönkunum – og þeir vildu græða á þeim líka.
Björgólfur Thor Björgólfsson talaði um einkavæðingu bankanna á fundi í Kaupmannahöfn í gær. Hann staðfesti það sem er alkunna, að einkavæðing bankanna fór fram með stórkostlega ámælisverðum og ósiðlegum hætti – það mætti jafnvel nota orðið glæpsamlegt í þessu tilviki. Bankarnir voru jú í eigu almennings.
Björgólfur segir að ferlið hafi verið sýkt af pólitík:
„Ríkisstjórnin átti líka að krefjast hærra eiginfjárhlutfalls en hún gerði, til að tryggja fjárhagslegri sterkari kaupendur. Hvorugt gerði ríkisstjórnin. Ástæðan er sú að eftir að ég og viðskiptafélagar mínir höfðum að eigin frumkvæði samband við stjórnvöld og lýstum áhuga á að kaupa Landsbankann – sem var í söluferli, þar sem við áttum erlent fjármagn til slíkra kaupa, þá sýktist ferlið af pólitík. Aðrir aðilar þröngvuðu sér inn í ferlið og spilltu því. Við uppfylltum stærsta skilyrðið, þar sem við vorum í raun erlendir fjárfestar. Þeir sem komu síðar inn i ferlið áttu ekkert eigið fé, hvað þá erlent fjármagn. Til að halda mikilvægum aðilum ánægðum ákvað ríkisstjórnin að selja báða bankana á sama tíma og um leið var ákveðið að fara ekki fram á hátt eiginfjárhlutfall. Þetta var gert til að liðka fyrir fjárvana, pólitískum bandamönnum, sem gátu nýtt pólitísk tengsl sín til að fá lán fyrir bankanum. Salan á Landsbankanum varð að forskrift fyrir sölu á Búnaðarbankanum.
Ég hafði ýmislegt við þetta ferli að athuga á sínum tíma og lét óánægju mína í ljós á opinberum vettvangi. Ég velti fyrir mér að hætta við kaupin og ég hefði átt að ganga á brott þegar ég áttaði mig á að verið var að hagræða ferlinu, til hagsbóta fyrir meinta kaupendur Búnaðarbankans. En ég ýtti eigin efasemdum frá mér og það reyndust mestu mistök sem ég hef gert. Pólitísku vildarvinirnir fengu bankann og hófu að blása út gengi hlutabréfa í honum til að afla fjár til að greiða kaupverðið.“
Reyndar var það svo að eitt skilyrði þess að Landsbankinn var seldur var að Kjartan Gunnarsson fylgdi með í kaupunum. Kjartan var gerður að varaformanni bankastjórnarinnar og þar sat hann þangað til í hruninu. Eins og sagt hefur verið frá var þetta til þess að „talsamband“ héldist milli bankans og forsætisráðuneytisins. Auk þess að vera pólitískur kommissar var Kjartan á sama tíma framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins.