Fyrsta Kilja vetrarins er í kvöld. Hún er helguð Bókmenntahátíð í Reykjavík sem er sett í dag.
Þrír merkilegir gestir af hátíðinni koma í þáttinn. Það eru egypska skáldkonan og baráttukonan Nawal el Sadaawi, þýski höfundurinn Ingo Schulze og Denise Epstein, en hún er dóttir Irene Némirovsky – sem lést í Auschwitz 1942 en skildi eftir sig handrit að bókinni Frönsk svíta sem uppgötvaðist síðar og hefur farið sigurför um heiminn.
Páll Baldvin og Kolbrún Bergþórsdóttir fjalla um Franska svítu en einnig um nýútkomna þýðingu á skáldsögu eftir Nóbelsverðlaunahafann Hertu Müller sem nefnist á íslensku Andarsláttur.
Valinn hópur áhugafólks um bókmenntir sér svo um að kynna höfundana á hátíðinni.
Irene Némirovsky og fjölskylda hennar. Hjónin voru myrt í Auschwitz, en önnur dóttirin, Denise Epstein, er gestur á Bókmenntahátíð.