Það er skrítin umræðan um Kínverjann sem er að kaupa Grímsstaði á Fjöllum.
Grímsstaðir eru vissulega stór jörð – en hún er afskekkt og nær mestanpart yfir fjöll og heiðalönd.
Hún liggur einna fjærst sjó af öllum jörðum á Íslandi – og því er kannsk ankanalegt að segja að kaupin á henni séu liður í að seilast til áhrifa á Norður-Atlantshafi.
Þá má spyrja hvort Kínverjinn sé einhvers konar agent – hvort að baki þessu búi einhver allt önnur áform en sagt er frá.
Hann segist ætla að byggja upp ferðaþjónustu á Grímsstöðum. Það gæti verið við ramman reip að draga. Á Grímsstaði er langt að fara frá þéttbýlisstöðum, þarna er mjög kalt á vetrum – og í raun er ekki mikið að sjá þarna annað en öræfi.
En, sem ég segi, kannski ætlar hann að gera eitthvað allt annað – þannig er umræðan að minnsta kosti.
Það er talað um að Kínverjar séu að kaupa upp land víða í heiminum til að rækta matvæli – en, nei, varla eru mikir möguleikar í matvælaframleiðslu á Fjöllum umfram sauðfjárræktina sem þar hefur verið stunduð frá alda öðli.
Nú, Jökulsá á Fjöllum rennur þarna um hlöð, en í henni eru hvergi virkjanir og í raun hefur verið víðtæk samstaða um að hún verði ekki virkjuð. Varla getur Kínverjinn reist virkjun þar í skjóli nætur.
Ég las líka greinarstúf þar sem var varað við því hvernig Kínverjar eru að taka yfir verslun og iðnað á Spáni og Ítalíu. Á Spáni eru Kínabúðir út um allt og innfæddir kaupmenn eru víða að gefast upp fyrir samkeppninni.
En varla ætlar Huang Nobu að hefja hér stórfellda verslun eða iðnað. Grímsstaðir væru varla heppilegur staður til þess.
Kannski hugsa einhverjir sem svo að nú verði að stöðva framrás Kínverja (var einu sinni kallað Gula hættan) áður en hún nær lengra. Þetta sé hugsanlega einhvers konar liður í hnattrænni kínaskák.
En á sama tíma er verið að kalle eftir fríverslunarsamningi við Kína sem er jafnvel stillt um sem valkosti við aðild að Evrópusambandinu. Það er heldur ekki minni maður en Ólafur Ragnar Grímsson forseti sem hefur verið fremstur í flokki að rækta tengslin við Kína.
Af einu er þó nóg af á Fjöllum sem er ekki að finna alls staðar í Kína – plássi.