Bubba Morthens er mjög í nöp við tónlistarhúsið Hörpu. Hann er sífellt að tala og skrifa gegn því. Sér ekkert nema snobb og hroka þar sem sinfóníur og ópera eru allsráðandi.
Á jazzhátíð sem nú stendur yfir eru fjölmargir tónleikar í Hörpu, þar á meðal með Eyþóri Gunnarssyni og Davíð Þór Jónssyni, Mezzoforte og Stórsveit Reykjavíkur, Björk verður með röð tónleika í Hörpu í haust í tengslum við Iceland Airwaves og þangað eru að koma erlendir listamenn á borð við Elvis Costello, Sinéad O´Connor og Paul Young.
Í Hörpu er verið að sýna rokksöngleikinn Hárið og þar er auglýst uppistand með Charlie Murphy og Kevin Smith.
Cindy Lauper hefur sungið í húsinu og Páll Óskar fyllti það fimm sinnum snemma í sumar. Helgi Björns hélt tónleika þar.
Meira að segja Lúðrasveitin Svanur fyllti Hörpuna í sumar – og er sagt að hafi verið einstaklega góður andi á tónleikunum.
Þess utan er áhugaverð klassísk efnisskrá framundan í húsinu, það er von á Gustavo Dudamel, mesta töffaranum í hópi hljómsveitarstjóra, hann stjórnar Tsjaikovskí og Mozart, Víkingur Heiðar og Ashkenasy sameinast í 3. píanókonsert Rakhmaninovs og óperan setur upp Töfraflautuna.
Þetta eru nú engin óskapleg þyngsli. Maður hefur frekar á tilfinningunni að það gæti orðið offramboð af tónlistarviðburðum í húsinu – en það nær ábyggilega jafnvægi þegar líður á.