Það er áhugavert að fylgjast með fabúleringum um tækifærin sem kunni að leynast í því fyrir Íslendinga ef siglingar hefjast um Norðurheimskautið.
Reyndar er staðan sú að þessar siglingar geta bara staðið í stuttan tíma á ári enn sem komið er – og verður svo líklega um langt skeið.
Þetta kort sem er af vef BBC sýnir vel hvernig þetta svæði lítur út. Tilkall Íslands til auðlinda þarna norðurfrá er ekkert. Við erum miklu sunnar en löndin sem teljast vera eiga strandlengju að Norður-Íshafinu.
Fyrir okkur eru ógnirnar eiginlega jafn miklar og tækifærin – hættan sem felst í því að stór olíuskip sigli framhjá Íslandi og að mengun fari úr böndunum á svæðinu. Það er reyndar mál alls mannkyns – lífríkið þarna norðurfrá er mjög viðkvæmt. Að sumu leyti hefði verið best ef hægt hefði verið að komast að sömu niðurstöðu um Norðurskautið og Suðurskautið – að þetta sé friðland.
Það hefur líka verið talað um að tækifæri okkar kynnu að liggja í umskipunarhöfn fyrir þessar siglingar. Það getur vel hugsast að þetta verði að raunveruleika einhvern tíma í framtíðinni, en það hefur líklega verið talað um að eins líklegt sé að slík höfn yrði í Noregi.