Það að vera frægur á ekki að þýða að maður fái sjálfkrafa borð á veitingahúsum þar sem er fullt.
Í Berlín er veitingastaður sem varð vinsæll vegna þess að Brad Pitt fékk ekki borð þar. Pitt kom þangað ásamt fleira fólki. Honum var sagt að hann yrði að bíða eftir borði. Hann lét sig hafa það, beið – en svo vildi til að á staðnum var blaðamaður sem kom þessu í fjölmiðlana.
Síðan hefur þetta verið mjög eftirsóttur veitingastaður – maturinn þykir reyndar frekar góður.
Og þess vegna á þýska veitingakonan sem hafði ekki borð fyrir konung og drottningu Svíþjóðar ekki að biðjast afsökunar á framgöngu sinni. Hún ætti þvert á móti að vera stolt.
Fátt er leiðinlegra í nútímanum en sleikjugangur við frægt fólk sem getur nánast tekið á sig mynd trúarbragða – og þar er kóngafólk meðtalið.