Hannes Pétursson, eitt höfuðskáld okkar Íslendinga, skrifar litla grein í Fréttablaðið í dag þar sem hann er nokkuð háðskur í garð nágranna síns á Álftanesi, Ólafs Ragnars Grímssonar forseta. Hannes kveður sér ekki oft hjóðs á opinberum vettvangi, svo menn taka vel eftir því sem hann skrifar. Í greininni segir meðal annars, Hannes er að leggja út af bókamessunni miklu í Frankfurt í október þar sem Ísland verður heiðursgestur:
„Það hlýtur að teljast sjálfsagður hlutur að forseti lýðveldisins, Ólafur Ragnar Grímsson, sá kunni Evrópusinni og ágæti náttúruvísindamaður, einkum á sviði jöklafræði, eldfjallafræði og loftslagsfræði, mæli nokkur orð þarna í Frankfurt, í fæðingarborg Goethes og höfuðstöðvum evrunnar. Glamuryrði forsetans um okkur Íslendinga eru jafnan vel þegin bæði hér heima og utanlands. Þau laga sig að vísu hverju sinni eftir aðstæðum, jafnt fyrirhrunsglamrið sem eftirhrunsglamrið, enda er forseti lýðveldisins búinn einum af mörgum merkilegum kostum Óðins.
Í Ynglingasögu segir Snorri um Óðin „að hann kunni þær íþróttir, að hann skipti litum og líkjum á hverja lund, er hann vildi“.
Það ætti einkar vel við að forseti lýðveldisins talaði í Frankfurt um heimsbókmenntirnar. Í fyrsta lagi vegna þess að á umliðnum árum hefur hann sérhæft sig í að setja alla atburði og öll atvik, sama hversu smá þau voru, í heimssögulegt ljós; í annan stað fyrir þá sök að Goethe, nafnkenndasti sonur Frankfurtborgar, bjó til hugtakið heimsbókmenntir („Weltliteratur”). Ég segi fyrir mína parta að ég treysti engum manni betur en forseta lýðveldisins til að gera sér mat úr hugtaki Goethes, okkur öllum til frægðar og frama.“