Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, hélt ræðu á Hólum um daginn og er ekki alveg ánægður með viðtökurnar ef marka má eftirfarandi orð sem hann birti á Facebook síðu sinni:
„Ég vil þakka þeim sem gáfu sér tíma til að snúa út úr Hólaræðunni minni og svara henni með því að ráðast á mig persónulega. Að vísu var minna um það en ég gerðir ráð fyrir en slík viðbrögð voru nauðsynleg til að renna stoðum undir innihaldið. Ég þakka þó líka öllum þeim sem voru ánægðir með ræðuna.“
Ræðan er að sumu leyti athyglisverð, en hún er kannski ekki alveg í þeim anda sem maður býst við að Sigmundur gerir fremur lítið úr þeim hremmingum sem íslenskt samfélag lenti í við efnahagshrunið, en eyðir miklu púðri í umræðuna eftir það. Þetta er þó allt frekar óljóst, maður veit eiginlega ekki alveg um hvað og hverja Sigmundur er að tala. Hann segir að talað sé um heilu stéttirnar með hætti sem hafi ekki tíðkast síðan á „millistríðsárunum“:
„Öfgar og frávik frá grundvallarreglum sem áður voru taldar ófrávíkjanlegar eru réttlætt út frá ástandinu. Ástandið hefur verið notað til að réttlæta hegðun sem annars væri ekki ásættanlegt -hvort sem það er að grýta opinberar byggingar, ráðast að heimilum fólks eða beita samborgarana ofbeldi. Ofbeldið fer reyndar að mestu leyti fram í ræðu og riti. Sumir virðast telja að sér sé leyfilegt að segja hvað sem er óháð sannleiksgildi og án tillits til almenns velsæmis og réttlæta það fyrir sjálfum sér og öðrum með vísan til efnahagsþróunar.
Þegar menn greinir á um ólíkar leiðir við lausn á miklum vanda er eðlilegt að þeir takist á og umræðan geti orðið hörð á köflum. En það er eðlismunur, ekki stigsmunur, á hörðum deilum um pólitíska stefnu eða persónulegu níði og galdraofsóknum.“
Síðan talar Sigmundur um stjórnarskrána. Þar kemur kafli þar sem hann les upp úr stjórnarskrá Sovétríkjanna, eins og til að sýna að stjórnarskrár séu lítt marktækar. En auðvitað hefði alveg eins verið hægt að nefna stjórnarskrá Bandaríkjanna eða stjórnarskrá Þýskalands til að sýna fram á hið gagnstæða:
„Margir, ég þar á meðal, töldu að það mætti nota það tækifæri sem gafst með efnahagshruninu til að bæta ýmsa þætti samfélagsins og taka allt til skoðunar, þar með talið stjórnarskrána. Reynslan hefur hins vegar sýnt að það andrúmsloft sem myndaðist í samfélaginu á undanförnum þremur árum hefur ekki skapað bestu aðstæðurnar til að skrifa nýja stjórnarskrá.
Stjórnlagaráð, hópur sem ráðinn var til að skrifa drög að frumvarpi um stjórnarskrá hefur nú skilað niðurstöðum sínum. Í þeim tillögum er margt gott að finna en þó finnst mér þær bera um of mark þess samtíma sem þær eru unnar í, skrifaðar fyrir ríkjandi umræðu og undir áhrifum hennar. Þær eru um of barn síns tíma en það er einmitt það sem stjórnarskrá á ekki að vera. Stjórnarskrá þarf að vera sígild.
Stjórnarskrá á ekki að vera eins og kosningabæklingur stjórnmálaflokks. Stjórnarskrá á að innihalda grunnreglur lýðræðis, ekki grunnstef orðræðis. Hún verður að vera byggð á meginreglum, algildum og framfylgjanlegum.“
Stjórnmálamenn hafa farið að Hólum og haldið ræður í gegnum tíðina. Steingrímur J. Sigfússon hélt ræðu þar fyrir tveimur árum og það var í ræðu á Hólum 1999 sem Davíð Oddsson talaði um hættuna á að hingað streymdu óhreinir peningar frá Rússlandi. Maður getur bara ekki beðið eftir næstu Hólaræðu.