Berlín er máski skemmtilegasta höfuðborg í Evrópu.
Hún er opin og frjálsleg, það er nóg pláss í Berlín, fullt af góðum matsölustöðum og skemmtilegum búðum, verðlag er býsna hagstætt, umferðin er róleg og gott að ganga eða hjóla, í borginni eru ótal söfn og frábært tónlistarlíf, og Berlín hefur sögu sem hvert mannsbarn þarf að kynna sér. Berlín er líka eins og hlið að Austur-Evrópu, það er stutt til Póllands og Tékklands.
Það er mikið af ferðamönnum í Berlín en borgin á samt erfitt með að standa undir þessu öllu.. Rekstur margra safna, sinfóníuhljómsveita og óperuhúsa kostar sitt. Það er stundum talað um hina fátæku Berlín. Íbúarnir eru ekki nema um fjórar milljónir, þeir væru miklu fleiri ef ekki hefði komið til heimstyrjöldin síðari og kalda stríðið. Það hefur nýlega verið upplýst að Konrad Adenauer, fyrsti kanslari Vestur-Þýskalands, vildi gjarnan skipta á Berlín og öðru landsvæði. Adenauer var kaþólskur maður frá Rínarhéruðunum – honum var mikið nöp við Prússland og Berlín.
Sumir segja að Þýska alþýðulýðveldið hafi verið eins konar prússnesk útgáfa af kommúnismanum.
En Berlín hjarði eins og eyja lengst inni í austurblokkinni. Vesturveldunum þótti ekki koma til greina að gefa hana upp á bátinn. En það þótti ekki eftirsóknarvert að búa þar. Fólk sem flutti til Vestur-Berlínar fékk skattaafslátt og það þurfti ekki að gegna herþjónustu. Því varð Berlín eins konar miðstöð fyrir rótttækni og andóf. Það var svo kaldhæðni örlaganna að hinum megin við Múrinn hafði róttæknin endað í lögreglukúgun, persónunjósnum og skrúðgöngum til að hylla kommúnistaflokkinn.
Austur-Berlín var afar illa farin þegar Múrinn hrundi 9. nóvember 1989. Menn minnast þess nú að fimmtíu ár eru liðin síðan Múrinn var reistur – til að koma í veg fyrir að hérumbil allir íbúar Austur-Þýskalands flýðu vestur. Stærstur hluti miðborgar Berlínar var á rússneska hernámssvæðinu, í Austur-Berlín. Heilu göturnar höfðu náttúrlega verið sprengdar í tætlur, en þegar tíminn leið var uppbyggingin aðallega í formi stórra íbúðablokka sem kallast plattenbau. Eldri hverfi eins og í Mitte og Prenslauer Berg grotnuðu niður – þar bjuggu listamenn og spássíufólk í stórum en niðurníddum íbúðum.
Þessi hverfi hafa verið gerð upp þannig að sómi er að. Sumum finnst meira að segja of langt gengið – að það sé verið að úthýsa alternatív fólkinu sem tók sér bólfestu á Prenslauer Berg eftir hrun. Það hefur að nokkru leyti fært sig yfir í gamla verkamannahverfið Neukölln sem var í Vestur-Berlín. En miðjan í Berlín hefur aftur færst austur – Kurfürstendamm sem var aðalgatan í Vestur-Berlín er nánast eins og sveitagata eftir sameininguna og hina miklu uppbyggingu í austurborginni.
Íbúar Berlínar eru nú um 3,5 milljónir, þeir voru fleiri fyrir stríð eða næstum 4,5 milljónir. Það er hægt að ímynda sér að íbúarnir væru hátt í tíu milljónir ef borgin hefði ekki verið svo grátt leikin á síðustu öld. En það hefur farið fram gríðarleg uppbygging í Berlín síðan Múrinn féll – og það eru fáir staðir í Evrópu sem er skemmtilegra og áhugaverðara að heimsækja.
Íslendingar er sífellt að fara til London og Kaupmannahafnar, stór hluti af flugi frá Íslandi til Evrópu beinist þangað, en Berlín er í raun þægilegri, skemmtilegri og ódýrari áfangastaður. Fyrir utan hvað Þjóðverjar eru dæmalaust velviljaðir Íslendingum.