Efnahagsstefnan sem hér hefur verið rekin frá því eftir hrun er að lenda í ógöngum.
Vaxtahækkun Seðlabankans er til marks um það. Að hækka vexti í hagkerfi þar sem umsvif eru í lágmarki hljómar eins og geggjun – alls staðar á Vesturlöndum eru vextir mjög lágir. En menn hafa ekki stjórn á verðbólgunni, þrátt fyrir hægaganginn í hagkerfinu og gjaldeyrishöftin.
Það tekst ekki að koma á hallalausum fjárlögum eins og gert hafði verið ráð fyrir í áætlun Alþjóða gjaldeyrissjóðsins. Við blasir meiri niðurskurður og meiri skattahækkanir.
Seðlabankinn vill kaupa krónur á yfirgengi, 210 krónum og býður ríkisskuldabréf, en viðtökurnar eru nánast engar. Bankinn vildi kaupa 72 milljónir evra á þessu gengi, en fékk 3 milljónir. Þetta sýnir að traustið er ekki mikið – er raunverulegt gengi krónunnar enn lægra en þetta?
En auðvitað ræður ástandið erlendis miklu um hvernig Íslendingum reiðir af. Ef verður annað efnahagshrun, eins og hefur jafnvel verið spáð, munu Íslendingar sogast með. Það getur ekki farið öðruvísi. Við erum lítil eyja norður í höfum, en í efnahagslegum skilningi erum við ekki eyland – jafnvel þótt við höfum krónuna.