Á bloggsíðu Einars Steingrímssonar stærðfræðings er fróðleg umræða um kvótamál og háskóla, sem spinnst af þeirri staðreynd að LÍÚ kosta stöðu sérfræðings í auðlindamálum við Háskóla Íslands. Þetta hefst með athugasemd Helga Áss Grétarssonar við skrif Einars, en svo eru ýmsir sem skrifa í ummælakerfið.
Einn þeirra sem gerir athugasemd kallar sig Finn og segir meðal annars:
„Svona almennt þá finnst mér sumir lögfræðingar sem fjalla um þetta vera komnir ansi langt í orðhengilshætti. T. d. hefur Sig. Líndal sagt að ,,þjóðin” eigi ekkert heldur sé það íslenska ríkið. Mér datt aldrei annað í hug þegar menn segja ,,þjóðin” í þessu samhengi en að átt væri við ísl. ríkið. Það er munur á almennu talmáli og lögfræðilegum hugtökum. En þegar menn eru svo niðursokknir í fræðin að þeir eru hættir að gera greinarmun á almennu talmáli og fræðilegu lögfræðimáli þá má spyrja sig hversu hæfir þeir eru til að gera greinarmun á öðrum og flóknari hlutum?
Úthlutun aflaheimilda (kvótaréttur) á sínum tíma var fest við ákveðin skip, ókeypis að ég best veit, og eignuðust þá eigendur skipa þessara gífurleg verðmæti í formi framseljanlegra aflaheimilda. Engu síður stendur skýrt í lögum um stjórn fiskveiða, frá upphafi, að slík úthlutun veiti ekki eignarétt. Sérfræðingar (sumir) í eignarétti hafa samt komist að þeirri niðurstöðu að ,,þegjandi samkomulag” ef svo má segja, hafi skapað eignarétt á þessum aflaheimildum með tímanum því þær hafi verið keyptar í ,,góðri trú” og/eða skv. ,,réttmætum væntingum” svo einhver lögfræðileg hugtök séu notuð. En samt sem áður þvert á settan rétt, almenn lög.
Það er ekki skrítið að margir telji þetta óréttlátt. Að allir hafi ekki setið við sama borð frá upphafi og takmörkuð auðlind þjóðar (ríkisins, lýðveldisins Íslands) sé nú í raun í eigu fárra aðila. Hvað myndu Norðmenn segja ef olíunni hefði verið útdeilt á sínum tíma frítt til fárra einstaklinga og allur vinnslu- og nýtingarréttur væri nú í eigu fárra aðila? Og þeir hagnast með slíkum hætti að þeir væru ráðandi í norsku atvinnulífi?
Allt í nafni þess að útflutningur á olíunni skapaði svo miklar gjaldeyristekjur að Noregur í heild sinni nyti góðs af og að einstaklingar myndu alltaf reka þetta með mestri hagkvæmni, sem aftur þýddi að öll þjóðin myndi græða mest á því?
Sjá menn fyrir sér að þetta gengi upp? Það þarf ekki lögfræðing til að skilgreina ,,réttlæti”.“