Bresk stjórnvöld hafa kallað til bandaríska „ofurlöggu“, Bill Bratton frá Los Angeles, vegna óeirðanna í borgum Bretlands.
En þá ber svo við að Bratton segir að ráðast verði að undirliggjandi vandamálum – hann tekur ekki undir með þeim sem telja að óeirðirnar hafi verið einhvers konar „sport“, eða að hvítt fólk sé allt í einu farið að haga sér eins og svart fólk eins og einn jakkafatarasistinn orðar það.
Nei, Bratton segir að það þurfi að draga úr spennu milli kynþátta, að leiðtogar í bæjar- og sveitarstjórnum þurfi að beita sér meira á því sviði, að það þurfi fólk af fleiri kynþáttum í lögregluna. En hann segir líka að lögreglan þurfi meira fé og betri búnað, nokkuð sem George Osborne fjármálaráðherra tekur ekki í mál.
Bratton segir líka að það sé óráðlegt að beita handtökum í of miklum mæli til að ráðast gegn vandanum – það sé ekki lausn sem dugi til frambúðar. Dómstólar í Bretlandi vinna nú á næturvöktum við að dæma óróaseggi – en einnig er verið að beita ráðum eins og að vísa fjölskyldum þeirra sem tóku þátt í óeirðunum úr félagslegu húsnæði.