Umræðan um Evrópu getur orðið býsna furðuleg hér á landi – og einhvern veginn úr tengslum við allt sem maður upplifir þegar maður er í burtu frá Íslandi. Hér virðist reyndar vera nokkuð stór hópur sem dreymir um að Evrópusambandið liðist í sundur – eða hið evrópska stórríki eins og það er gjarnan kallað – þessi málflutningur er furðulega hatursfullur.
Og svo eru alls konar vitleysur sem vaða uppi, það tekst stundum að leiðrétta þær í smátíma – en svo skjóta þær upp kollinum aftur.
Eins og til dæmis þessi sem er úr nýlegri grein eftir fyrrverandi ritstjóra Morgunblaðsins:
„Stórveldi gera allt til að halda stöðu sinni. Þess vegna horfir hið fallandi evrópska stórveldi norður í Atlantshaf til lítillar eyju, þar sem býr fátt fólk. Sú eyja gæti opnað hnignandi veldi aðgang að nýjum auðlindum í norðurhöfum, sem gætu fært því nýtt líf um skeið.“
Það er fátt sem bendir til þess að Evrópusambandið hafi einhvern ofuráhuga á Íslandi – Ísland sótti um aðild og það er óljóst hvort í boði er nógu góður samningur til að aðild sé fýsileg. Það mun koma í ljós. Í Evrópu er ekki talað um að Ísland skipti máli varðandi framtíð sambandsins.
Íslendingar hafa auðlindir sem ættu að vera nægar fyrir þjóðina ef skynsamlega er á málum haldið. Við höfum okkar fiskistofna – fiskurinn er mestanpart seldur til Evrópu – og við höfum okkar orku, en hún er ekki í slíku magni að hún skipti neinum sköpum fyrir Evrópu. Náttúruvernd setur líka miklar takmarkanir á notkun orkunnar.
Hvað varðar hugmyndir um nýtingu auðlinda í Norður-Íshafinu, þá er staðreyndin sú að Íslendingar hafa engan aðgang að þeim. Við getum í mesta lagi búist við auknum siglingum framhjá landinu vegna bráðnunar íssins í norðurhöfum, þótt vafasamt sé að þær verði sérlega umfangsmiklar á næstu áratugum.
Evrópa er í skuldakreppu – og Ísland reyndar líka. Það getur vel verið að þetta ástand muni hafa áhrif á uppbyggingu Evrópusambandsins, en það er fátt sem bendir til þess að það muni liðast í sundur.
Og það er öruggt að Ísland mun ekki geta bjargað Evrópusambandinu – eða fært því nýtt líf.