Þegar ég var að byrja í blaðamennsku voru mikil uppþot á Englandi, þau voru af þeirri sortinni sem í þá tíð kölluðust kynþáttaóeirðir – það voru aðallega hverfi þar sem blökkumenn búa sem loguðu: Brixton í London, Toxteth í Liverpool. Þetta var sumarið 1981 og ég skrifaði nokkrar greinar um þetta. Þetta var lok pönktímans, Thatcher var komin til valda – það var ekki góður tími í Bretlandi.
Nú eru aftur óeirðir á svipuðum slóðum. Upptök þeirra eru nokkuð óljós, en þau tengjast dauða ungs manns sem lögreglan skaut til bana. Borgarstjórinn í London, Boris Johnson, hefur slitið sumarfríinu sínu og David Cameron forsætisráðherra hefur ákveðið að gera hið sama.
Umræðan um þessa atburði er furðu máttlaus. Menn virðast ekki átta sig alveg á þeim. Að einhverju leyti er þarna verið að stunda skemmdarstarfsemi, rán og gripdeildir, en svo er líka leitað skýringa í gengjamenningu sem er útbreidd meðal ungra blökkumanna og þeirri staðreynd að þeir njóta lítillar menntunar og verða undir í samfélaginu. Hverfin þar sem barist eru ekki beinlínis neinir fyrirmyndarstaðir. Það verður sjálfsagt deilt um lögregluofbeldi annars vegar og andfélagslega ofbeldismenn hins vegar, en staðreyndin er sú að ójöfnuðurinn sem ríkir í Bretlandi býður upp á að svona atburðir gerist með reglulegu millibili.