Samkvæmt þessari frétt sem sögð er byggja á læknatímaritinu British Medical Journal hafa rómantískar bókmenntir neikvæð áhrif á ástarsambönd. Konur sem lesi slíkar bækur láti raunsæið lönd og leið og eigi erfitt með að greina milli raunveruleika og skáldskapar.
Þetta eru reyndar ekki ný tíðindi.
Eitt helsta stórvirki heimsbókmenntanna, Madame Bovary eftir Gustave Flaubert, fjallar um nákvæmlega þetta. Það fer frekar illa fyrir frúnni þegar hún lætur rómantíska óra bera sig ofurliði og eyðileggur hjónabandið við Bovary lækni sem er svosem ágætis maður en óttalega púkó. Lái henni hver sem vill.
Bókin er til á íslensku í frábærri þýðingu Péturs Gunnarssonar.