Netið getur verið háskalegur staður og margir geta farið flatt þar, í fljótfærni, reiði eða dómgreindarleysi.
Eitt af því sem menn skyldu varast er að koma fram í mörgum gervum.
Eins og til dæmis norski bloggarinn Peder Jensen. Hann skrifaði undir nafninu Fjordman, hataðist út í múslima, og hafði áhrif á fjöldamorðingjann Anders Breivik. Nú hefur komist upp hver hann er – og hann segist aldrei ætla að blogga framar undir þessu nafni.
En hann hefur líka skrifað greinar undir nafninu Peder Jensen. Þær hafa birst í blöðum og á netinu. Þessi leikur hans hefur komið honum í vandræði, svipt hann ærunni.
Menn skyldu gæta þess á netinu að skrifa helst undir réttu nafni. Koma fram í eigin persónu. Ekki fara í hlutverkaleik sem felst í því að skrifa stundum undir nafni og stundum nafnlaust, hvort sem það er í vefmiðla, umræðukerfi eða á spjallsíður. Í raun á maður ekki að skrifa neitt sem maður áræddi ekki að segja við annað fólk, augliti til auglitis.