Einhvern veginn er það síðasta sem maður vill gera að hlusta á útskýringar norska ódæðismannsins á verkum sínum. Hann getur sjálfsagt réttlætt þetta í löngu máli – það verður óskaplegt að hlusta á það. Eins og stendur treystir maður sér varla til að nefna nafnið hans.
Noregur er réttarríki, hann verður dreginn fyrir dóm, og væntanlega dæmdur í lífstíðarfangelsi. Réttarhöldin munu vekja mikla athygli. Sumum finnst hann ábyggilega verðskulda dauðarefsingu – en henni er ekki beitt á Norðurlöndunum. Réttarhöldin eiga eftir að verða mjög erfið fyrir Norðmenn.
Við vitum að hann er hægriöfgamaður, ofsafenginn þjóðernissinni, sem hatast við innflytjendur, múslima, Verkamannaflokkinn. Það verður deilt um hvaða ályktanir á að draga af þessu. Sumir munu segja að þarna sé ráðist gegn fjölmenningarsamfélaginu – jú, og sjálfu lýðræðinu. Aðrir gætu sagt að það sé varla hægt að láta eins og pólitík sé aðalatriði í þessu. ódæðismaðurinn hafi líkast til verið einn að verki – verknaðurinn sé sprottinn úr hugarheimi hans og margir hafi slíkar skoðanir án þess að þeir grípi til vopna.