Hinn umdeildi sagnfræðingur Niall Ferguson heldur því fram í bókinni Civilization að vestrið hafi haft sex hluti sem ollu því að það stakk aðra heimshluta af:
Samkeppni, vísindi, lýðræði, læknisfræði, neysluhyggju og vinnusiðferði.
Ferguson segir að þetta sé lykillinn að velgengni Vesturlanda síðustu aldir.
Ferguson er einn þeirra sagnfræðinga sem er gefinn fyrir að reyna að sjá stórar línur og honum finnst líka gaman að spá endalokum. Hann veltir því fyrir sér hvort vestrið sé að glata einhverjum af þessum eiginleikum – og hvort aðrir heimshlutar séu ef til vill að tileinka sér þá með þeim hætti að þeir muni fara fram úr Vesturlöndum.
Þetta er umdeilt, sumum finnst Ferguson vera mikill spekingur, hann er vinsælasti og poppaðasti sagnfræðingur á Bretlandi – en öðrum finnst hann vera hrokafullur íhaldsgikkur.
Bókin er gefin út samhliða sjónvarpsþáttum – sem væri gaman að sjá á Íslandi. Þetta er að minnsta kosti umhugsunarvert.