Það er nokkuð fáheyrt að írskur forsætisráðherra hjóli í kaþólsku kirkjuna sem óvíða er jafn valdamikil og á Írlandi. Á Írlandi ríkti lengi eins konar klerkaræði.
En það gerði Enda Kenny, taoiseach á Írlandi, í óvenju harðorðri yfirlýsingu í gær.
Hann sagði að viðbrögð kirkjunnar við kynferðisbrotum presta gegn börnum í borginni Cork hefðu einkennst af tilraunum til að þagga niður í hneykslinu.
Þetta afhjúpaði sjálfsdýrkun, valdafíkn og veruleikafirringu Páfagarðs.
„Gert er lítið úr nauðgunum og pyntingum á börnum til að standa vörð um forræði stofnunarinnar, völd hennar og orðspor,“ sagði hann.
Kenny sagði ennfremur að samband Írlands og kirkjunnar gæti aldrei orðið hið sama eftir þetta. Kirkjan þyrfti að breytast.