Mál Dominique Strauss-Kahn veldur því að Nicolas Sarkosy, sem þykir lélegur og óvinsæll forseti, verður áfram í embætti. Strauss-Kahn þótti mjög líklegur til að velta forsetanum.
Eva Joly sigraði glæsilega í forvali græningja, en hún á ekki möguleika. Framboð hennar er heldur ekki hugsað með þeim hætti, hún er einfaldlega í baráttunni til að vekja athygli á málstað græningjanna.
Ég hef áður skrifað um að þrjár konur gætu verið á móti Sarkozy, Eva Joly, Marina Le Pen og Martine Aubry.
Marine Le Pen er dóttir hins gamla leiðtoga Þjóðfylkingarinnar, Jean Marie Le Pen, en hún er hefur klætt boðskapinn í neysluvænni búning. Stefnan er vond, en Marine er klár stjórnmálamaður.
Martine Aubry er stórmerkileg kona, og í raun prýðilegt forsetaefni. Hún er dóttir Jacques Delors, sem eitt sinn var framkvæmdastjóri Evrópusambandsins. En hún virðist heldur ekki eiga mikla möguleika – kannski er hún ekki nógu mikill ræðuskörungur, kannski vilja Frakkar ekki konu sem forseta. Aubry er núverandi formaður Sósíalistaflokksins, hins gamla flokks Mitterrands.
Í staðinn er það Francois Hollande, fyrrverandi formaður Sósíalistaflokksins, sem helst virðist skáka Sarkozy í skoðanakönnunum. Hollande á samt tæplega möguleika í kosningunum. Hann þykir heldur léttvægur stjórnmálamaður.
Í Frakklandi er kosið milli allra frambjóðenda í fyrri umferð forsetakosninga, en á milli tveggja efstu í síðari umferðinni.