Tal um hið „nýja norður“ kann að vera nokkuð fljótfærnislegt, enda er það að miklu leyti sett fram í áróðursskyni í umræðunni hér á landi. Það er talað um að framtíð þjóðarinnar liggi þar, en í raun er þetta afskaplega óljós málflutningur.
Það sem gerist í Norðurhöfum þegar ísinn hopar er að siglingaleiðir kunna að opnast og einnig aukast möguleikar á olíu- og námavinnslu og fiskveiðum.
Það er spurning hvernig Íslendingar njóta þessa. Við eigum ekki strönd að Norður-Íshafinu og getum ekki gert tilkall til auðæfa þar. Íslendingar hafa stundað fiskveiðar þarna norðurfrá, en Rússar og Norðmenn virðast stefna í að skipta þeim á milli sín.
Aðalbreytingin hvað Ísland varðar eru siglingarnar. Þeim fylgja bæði hættur og tækifæri. Hins vegar er þetta ekkert sem er að fara að gerast á morgun eða hinn, eins og Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur segir í nýrri bloggfærslu:
„Opnun þessarar nýju siglingaleiðar kann að vera tálsýn þegar horft er til þess að eins og oft hefur verið bent á að þá verða hafsvæðin um austanvert Ísahfið, þ.e. með Skandinavíu og Síberíu íslaus kannski frá miðjum ágúst og fram til loka september. Hlýnun loftslag mun vissulega haf gríðarlega mikil áhrif á ísmagn og útbreiðslu. Hún kemur þó ekki í veg fyrir það að hið seltulága Íshaf leggur yfir veturinn. Sjálfur hef ég stundum bent hinum bjartsýnu með siglingaleiðina að í október eftir að kólna tekur að ráði, þá myndast ís á hafsvæðum þarna norðurfrá sem eru um 10 x flatarmál Íslands !
Stephen Carmel bendur auk þess á það að þó leiðin sé styttri á korti, þýði það ekki að hún sé ódýrari þegar flutningar eru annars vegar. Ýmsar hættur og tafir geta fylgja sjóferðum ef þræða þarf á milli ísspanga og rekíss.
Vera kann með aukinni hlýnun að ísinn bráðni fyrr að sumrinu og íslausar vikur verði mun fleiri. En það verður vart fyrr en eftir einhverja áratugi og kemur ekki í veg fyrir þá staðreynd að áfram mun frysta þarna norður frá að haustinu þegar sólin gengur undir. Seltulítill yfirborðsjórinn mun þá áfram frjósa og mynda heilu hafþökin af illfærum hafís fyrir flutningaskip…“