Það er merkilegt að lesa að málið gegn Dominique Strauss-Kahn sé að hrynja.
Konan sem ásakar hann er sögð hafa logið síendurtekið.
Strauss-Kahn hefur verið niðurlægður – málið gegn honum var rekið í fjölmiðlum frá fyrsta degi. Hann var leiddur fram fyrir blaðaljósmyndara og kvikmyndatökumenn eins og hann væri glæpamaður. Hann þurfti að borga 6 milljónir dollara í tryggingu til þess að fá að vera í stofufangelsi í New York.
Hugsanlega verður Strauss-Kahn látinn laus í dag.
Hann er ekki lengur forstjóri Alþjóða gjaldeyrissjóðsins – en hann þótti hafa staðið sig sérlega vel í því embætti – og líklega getur hann ekki boðið sig fram til forseta í Frakklandi.
Maður veit þó aldrei. Frakkar eru mjög reiðir yfir meðferðinni á honum. Hins vegar hafa alls kyns mál sem hann varða verið dregin upp síðan hann var ákærður fyrir nauðgunina og þau geta reynst honum þung í skauti.