Það er talað um að gríska stjórnin hafi í dag unnið Pyyrrosarsigur. Það er búið að samþykkja neyðarlögin sem ganga út á niðurskurð, skattahækkanir og sölu ríkisfyrirtækja.
Grikkland getur þá fengið frekari efnahagsaðstoð frá ESB og IMF.
Það er semsagt búið að bjarga málum fyrir horn – í bili.
Í raun hefur vandanum eingöngu verið slegið á frest. Grikkland mun tæplega geta staðið undir því að standa hvort tveggja skil á skuldum sínum og halda uppi nauðsynlegri þjónustu ríkisins. Það má vissulega taka rækilega til í ríkisbúskapnum í Grikklandi, en í mennta- og heilbrigðiskerfinu er takmarkað hvað hægt er að skera, annars staðar gerir landlæg spilling og klíkuskapur aðhaldsaðgerðir mjög erfiðar. Spillingarflokkar raða sér í þingið og passa upp á kerfið sem þeir hafa byggt upp. Það er til mikið af ríku fólki í Grikklandi, en það er kannski ekki sérlega þjóðhollt, borgar ekki skatta og er gjarnt á að flytja fé sitt úr landi. Peningar spyrja ekki um þjóðerni þar fremur en annars staðar.
Það gæti hins vegar gefist færi á að endurskipuleggja skuldir landsins þannig að greiðslufall þess verði „skipulagt“, en hafi ekki í för með sér almenna upplausn.
Pyrrosarsigur þýðir að orrusta vinnst, en við svo mikinn kostnað að hermennirnir falla unnvörpum. Það gæti semsagt verið takmarkað hvað verður hægt að safna liði í næstu orrustu.
En valkostirnir eru ekki góðir. Grikkland er í blindgötu. Sú hugmynd að skipta út evrunni og fara aftur í drökmur er býsna fráleit eins og útskýrt er í ágætri grein í Viðskiptablaðinu þar sem fjallað er um efnahagsástandið í Grikklandi.