Niðurskurðarpakkinn var samþykktur í gríska þinginu áðan – og seinni hluti áætlunarinnar verður til umfjöllunar á morgun. Það er tímabundinn léttir fyrir Evrópusambandið.
Síðasta niðurskurðarplan gekk ekki eftir – og fæstir vænta mikils árangurs af þessum aðgerðum. Fyrr eða síðar verður að afskrifa eitthvað af skuldum Grikklands.
Þrátt fyrir miklar fréttir í heimspressunni eru mótmælaaðgerðirnar í gær og í dag ekki nándar nærri jafn öflugar og boðendur þeirra höfðu vonast til. Það vær færra fólk, baráttuandinn virtist ekki sérlega mikill, og það tókst ekki að umkringja þinghúsið eins og ætlunin var. Það mættu nokkrir tugir þúsunda, ekki tvö hundruð þúsund.
Kannski er fólkið orðið þreytt á mótmælum – það sér heldur enga leið út úr vandanum, hvort sem er mótmælt eða ekki. Og fæstir kæra sig um ofbeldi og eiga litla samleið með anarkistum sem berjast við lögregluna.