Auðvitað breyttust mótmælin í miðborg Aþenu í dag í óeirðir. Það höfðu verið kallaðir til 5000 lögregluþjónar. Grímuklædd ungmenni sem kalla sig anarkista tóku yfir mótmælaagerðirnar þegar leið á daginn – það kom líka til átaka milli þeirra og mótmælenda sem vildu hrekja anarkistana brott.
Vandinn er að mótmælin fara fram í einstefnugötu. Þau bera vott um magnleysi fremur en styrk. Það er mikil reiði, en lítið um hugmyndir. Grikkland býr við gjörspillta stjórnmálastétt. Spillingin er landlæg, ein af ástæðunum fyrir kreppunni er hvernig vildarvinum er stanslaust komið á ríkisspenann. Síðan voru hagtölur beinlínis falsaðar. Grikkir skattana sína helst ekki, og grískir auðmenn flytja fé sitt úr landi þegar þeir geta.
Grikkir þurfa nýtt stjórnmálakerfi, en hið gamla er svo inngróið að erfitt verður að hnekkja því. Í gamla daga við svona aðstæður hefði herinn líklega gripið inn í og tekið völdin.
Grikkir þurfa nauðsynlega á því að halda að hreinsað sé út úr þessu Ágíasarfjósi. Til þess er þó lítil von. Ótti við upplausn í landinu sér til þess. Margir sem ég hef talað við hafa horn í síðu verkalýðsfélaga sem kommúnistar stjórna. Þegar farið er berjast á götum höfuðborgarinnar verður millistéttin skelkuð. Í Grikklandi lifa minningar um herforingjaeinræði og borgarastríð við kommúnista.
Það er í raun sorglegt að stjórnmálaflokkarnir sem komu Grikklandi á vonarvöl. Nea Demokratia og Pasok, séu nú að ákveða örlög þjóðarinnar í þinghúsinu í Aþenu. En það virðist ekki vera völ á neinum öðrum. Það væri þó mikill áfangi í Grikklandi ef spilltir stjórnmála- og fjármálamenn væru dregnir fyrir dóm. Líklega væri best að byrja á Karamanlis, síðasta forsætisráðherra.