Ég er úti á agnarlítilli grískri eyju og geri ekki ráð fyrir að verða mikið var við verkföll í dag. Maður skilur heldur ekki alltaf hverjir leggja niður vinnu þegar verkföll brjótast út hér. Sum verkalýðsfélög eru undir stjórn kommúnista. Hér út á eyjunni vinna flestir hjá litlum fjölskyldufyrirtækjum – og þeir eru ekki hrifnir af verkföllum.
Hér gengur lífið nokkurn veginn sinn vanagang. Ferðamannastraumurinn hefur verið að aukast gegnum árin. Margir eyjaskeggjar hafa efnast vel. Hér var fólk almennt fátækt fram á síðustu áratugi 20. aldar. Maður hefur helst óttast að hér yrði byggt meira af húsum og hótelum en hið viðkvæma vistkerfi eyjunnar þolir. Það hefur nefnilega verið mikill uppgangstími í Grikklandi síðasta áratuginn, þótt líklega hafi það að miklu leyti verið falskt góðæri.
Það hefur verið auðvelt að fá lán í bönkum, Evrópusambandið hefur verið örlátt á styrki, það hefur verið mikill uppgangur á húsnæðismarkaði. Síðustu árin hefur manni þótt verð á húsum fáránlegt hér úti á eyjunum.
Það horfir reyndar ekki illa með ferðamennskuna í ár. Það er sagt að Ítalir og Frakkar komi meira til Grikklands í ár en undanfarið. Ástæðurnar eru tvær: Þeir veigra sér við að fara til landa í Norður-Afríku vegna hins ótrygga stjórnmálaástand og eins hafa þeir síður efni á að fara í langferðir í Karíbahafið eða til eyja í Indlandshafi. Þannig að þeir fara aftur á slóðir sem eru nær þeim.
Þannig að ég mun varla upplifa mikla dramatík nema í sjónvarpsfréttum. Maður finnur hins vegar að margir eru áhyggjufullir, ekki síst hópur kennara sem ég ræddi við í fyrrakvöld. Þetta er ungt fólk sem er komið hingað frá borgum Grikklands til að stunda kennslu. En þau virkuðu aðallega ráðvillt. Mér heyrðist þau ekki hafa mikla trú á því að verkföll eða mótmæli í Aþenu leiddu til mikils – en þau sjá ekki fram á bjarta framtíð með þeirri skuldaáþján sem blasir við Grikkjum.
Um þetta fólk er ekki hægt að segja að þau borgi ekki skattana sína. Þetta er venjulegt fólk sem getur ekki annað en staðið skil á sínum gjöldum. Það er rétt að ríkisstarfsmenn í Grikklandi eru alltof margir, en þessu unga fólki er ekki boðið upp á neitt hóglífi.
Vinur minn einn sem afgreiðir á litlu veitingahúsi hér – og langar að flytja til Noregs – sagði að nú yrði ég að fá kassanótu fyrir öll mín viðskipti hér. Öðruvísi væri ekki hægt að ráða niðurlögum skattsvikaranna.
Það verða feikileg átök í landinu næstu daga og heimsbyggðin fylgist með. Maður vonar innilega að blóði verði ekki úthellt í borgunum. Það stendur mjög tæpt með atkvæðagreiðslur í þinginu – ef neyðarlögin verða felld er sagt að ekkert nema gjaldþrot blasi við Grikklandi og þá líklega strax í júlí. Maður veit ekki hvernig það verður – hér er rætt um muninn á „skipulögðu“ og „óskipulögðu“ gjaldþroti. Evrópusambandið mun þurfa að koma þar að. Franskir bankar hafa boðist til að endurskipuleggja skuldir Grikklands, það kann að hafa einhver áhrif á niðurstöðuna í þinginu. Meirihluti Grikkja vill segja nei – en í þinginu er talið að sé naumur meirihluti fyrir jái.