Það er alls ekki rétt hjá Páli Vilhjálmssyni að aðildarumsóknin að ESB sé dauðvona. Að mörgu leyti horfir betur fyrir umsókninni en fyrir nokkrum misserum þegar Icesavemálið var í hámæli. Ef marka má þróun mála gæti orðið býsna mjótt á mununum.
Það eru ágætar líkur á því að náist samningar um sjávarútveg- og landbúnað sem þjóðin getur fellt sig við – og það er reyndar eitt af því sem liðsmenn Heimssýnar óttast.
Annað sem getur spilað inn í er að Ísland dragist aftur úr nágrannalöndum sínum eins og er að gerast. Það þýðir ekki að benda alltaf á Grikkland – í mörgum löndum Evrópu er góður gangur í efnahagslífinu. Sú tilfinning gæti vel ágerst að Íslendingar séu að einangrast úti í hafi.
Hins vegar er rétt hjá Páli að Samfylkingin vill reyna að leiða aðildarviðræður til lykta fyrir næstu þingkosningar – meðal annars í þeirri von að allt fari á rú og stú í öðrum flokkum fyrir kosningarnar. Þá gæti Samfylkingin grætt á því að vera eini flokkurinn sem er heill í afstöðunni til ESB.