Georg Guðni Hauksson sem nú er snögglega látinn, aðeins fimmtugur að aldri, var einn merkasti myndlistarmaður þjóðarinnar.
Hann hafði einstaka sýn – ég man hvílík upplifun það var að sjá fyrst myndirnar eftir hann. Jú, þetta voru landslagsmyndir – og landslag var ekki mikið í tísku þá – en það var land í móðu, útlínur fjalla, heiðalönd huldin þoku, kalt, norrænt, einhæft. En Georg Guðni dró fram dulúð þess og sérstæða fegurð.
Georg Guðni hafði mikil áhrif – ég held að varla hafi verið hermt jafn mikið eftir neinum myndlistarmanni í seinni tíð og honum. Líkt og Kjarval fann hann nýja sýn á landið – hann var frumlegur í besta skilningi þess orðs, þegar myndheimur hans var orðinn að veruleika voru margir sem tileinkuðu sér hann. Líkt og hann hefði alltaf verið þekktur, en það var hann ekki. Georg Guðni var sá sem uppgötvaði hann. Sumir hafa fetað slóð hans ágætlega, aðrir síður.
Georg Guðni skilur eftir sig mikla og merkilega arfleifð í málverkum sínum, en kveður þennan heim alltof fljótt.