Tvennar af helstu vegaframkvæmdum Íslands, Keflavíkurvegurinn og Hvalfjarðargöngin, voru fjármagnaðar með vegatollum. Þetta þótti ekkert svakalegt tiltökumál, nema hvað það voru stundum birtar skopmyndir í blöðum í gamla daga af mönnum sem vildu spara pening og fóru gamla veginn til Keflavíkur. Hann var úr möl – það sést enn móta fyrir honum á stöku stað.
Gjaldskýlin á Keflavíkurveginum voru í notkun í mörg ár, en voru svo loks fjarlægð.
Í dag les maður i Fréttablaðinu að Ögmundur Jónasson, sem fer með samgöngumál í ríkisstjórninni, sjái ekki forsendur fyrir því að ráðast í stórframkvæmdir í vegagerð vegna almennrar andstöðu við vegatolla.
En er hún svo almenn?
Fólk sem hefur ekið bifreið í Evrópu veit að þetta er algeng aðferð til að borga fyrir nýja og betri vegi. Á hraðbrautum eru gjaldskýli. Í Bandaríkjunum er þetta gamalreynd aðferð. Og eins og segir hér að ofan – það er líka hefð fyrir þessu hérna.